Sælir félagar
Ég vil nú byrja á að þakka mönnum fyrir gott sumar, þrátt fyrir að veðrið hafi strítt okkur aðeins á köflum.
Mig langar að byrja á því að koma inná það, þar sem talað er um seinagang í keppnum undanfarið, en hann virðist hafa farið framhjá mér, en kannski svíf ég bara um á bleiku skýi. Ég er nú ekki búinn að vera viðriðinn brautin nærri því jafn lengi og þið flest. En ég er þó búinn að standa á startlínunni í áratug, á velflestum keppnum og viðburðum, og frá því að ég byrjaði sumarið 2005 hefur margt breyst. Keppnishald, keppendafjöldi, áhorfendafjöldi og brautaraðstaða, og mér datt nú síst í hug að menn færu að setja út á seinagang á undanförnum árum. Þegar ég var að byrja, var það nokkuð eðlilegt að staðið væri í keyrslu á keppni framundir sex á daginn, keppnir hófust að mig minnir klukkan tvö. Nú er tíðin önnur, keppnir með meðal keppendafjölda uppá 25-35 tæki rúlla í gegn á rúmum klukkutíma þegar best lætur. Og olíuslysum er brugðist við fumlaust á stuttum tíma, olíuslysum sem fyrir fáeinum árum hefði jafnvel orðið til mikilla tafa á keppni, jafnvel frestun.
Þegar komið er að því að best sé að hafa keppnistæki í brautinni öllum stundum, þá er ég hjartanlega sammála, ég myndi vilja hafa sem þéttasta keyrslu, allar keppnir, alltaf. En keppendafjöldinn býður eiginlega ekki upp á það, ekki nema menn hafi áhuga á að klára keppnir á hálftíma, það er allavegana það sem ég vil meina að myndi verða niðurstaðan ef keyrt væri örar.
Vissulega koma upp tímapunktar í keppnum, þar sem tafir verða í keyrslu, ekkert að gerast, en þá er undantekningalítið búið að senda keppendur af stað upp í braut. Afhverju flæðið er ekki stöðugt er ekki gott að segja, stundum eru menn eitthvað að skrúfa, stilla, gera og græja. Og þá bara bíða menn, mótherjar, því allir erum við samherjar í sportinu, þá eru tafir, ekkert að gerast í brautinni. Þannig horfir þetta við mér, vissulega þurfum við að reyna að gera sem mest fyrir áhorfendur okkar sem mæta, borga sig inn og horfa á. Mér finnst ekki rétta leiðin að setja allt í overdrive og klára allt af, í einum grænum hvelli. Mér finnst fólk þurfa að fá eitthvað fyrir peninginn, og við gerum hvað við getum.
Hvað staffið varðar, þá ætla ég að byrja á því að þakka þessum fáu einstaklingum sem gefa sér tíma til að koma og standa að keppnishaldi fyrir og með klúbbnum, kærlega fyrir samstarfið á undanförnum tímabilum. Þetta er fámennur hópur, sem vinnur að því er mér finnst mjög vel saman og gerir sitt vel. Sá galli er hinsvegar á gjöf njarðar að það eru höggvin stór skörð í keppnishaldið ef einn og einn aðili dettur út, kemst ekki til að vera með okkur. Nú hefur það verið stefnan undanfarin ár að koma upp öðru brautarteymi, eins og Ingólfur bendir á, en það hefur ekki gengið, það skilar sér ekki fólk í það, ekki fáir, eiginlega bara engir. Gaman þætti mér að heyra hvað það er í störfum starfsfólksins sem þyrfti helst að slípa saman, þau vita hvað þau eiga að gera, öll samskipti fara saman í gegnum talstöðvar. Nema þá kannski samskipti keppnisstjórnar og pittstjóra, en hann fær allar upplýsingar beint inn á lófatölvu um leið og þær eru tilbúnar. Það eina sem ég get fyrir mína parta sett út á starfsfólkið er að það er of lítið af því, en það er lítið sem núverandi starfsfólk getur gert í því. Jú og það bráðvantar þul, sem getur matað upplýsingar ofan í fróðleiksfúsa áhorfendur.
Og ekki sé ég hvernig það á að breyta nokkrum sköpuðum hlut á nokkurn veg, að skipta út keppnisstjóra, ekki það að ég hugsa að Jón yrði stórfeginn ef það er einver til í að koma og vera keppnisstjóri í hans stað. En ég sé ekki að það breyti keppnishaldinu neitt, keppnir eru keyrðar eftir sama fyrirkomulagi og það hefur í grófum dráttum verið eins síðan ég byrjaði. Einhverjir kunna að halda að ég ætli að halda einhverjum hlífiskyldi yfir honum afþví að við erum vinir en það er nú ekki svo. Það slær sennilega hvað oftast í brýni okkar á milli, á keppnisstað, í keppni, heldur en milli nokkurra annarra, kemur reglulega að við séum ósammála. En það er þá bara rætt, þar til niðurstaða er komin. En eftir því sem mér hefur sýnst, þá er staða keppnisstjóra ekkert voðalega eftirsóknarverð, allavegana hefur enginn sýnt því áhuga að taka við. Kannski er aðilinn bara búinn að bíða á hliðarlínunni eftir rétta tækifærinu, það er núna, mér finnst við hæfi að sá hinn sami kynni sig. Okkur vantar alltaf fleira fólk, vont ef fólk situr heima og heldur að því yrði illa tekið, allir velkomnir í staff sem eru til í að starfa fyrir klúbbinn.
Þetta er orðinn agalegur pistill, en það verður að hafa það, maður verður hálfsár, við svona lesningu, eftir allt það sem er búið að gera og færa til betri vegar á brautinni undanfarin ár.
Og að lokum vil ég þakka ykkur félagar, keppendur, sem hafið fyrir því að mæta og skemmta ykkur og öðrum, keppni eftir keppni, sumar eftir sumar, fyrir góðar stundir.
Takk
Með bestu kveðju
Arnar B. Jónsson
Addi Ræsir.