Ég setti þennan pistil minn sem svar, í annan þráð hér á spjallinu, en mig langar að koma þessu betur á framfæri svo að ég skutla þessu hingað líka:
"Mér finnst vera margt sem betur mætti fara á keppnum undanfarið. Fyrr í sumar var keppni þar sem tafir voru mjög miklar og upplýsingastreymi til áhorfenda var ekkert. Enginn vissi eftir hverju var verið að bíða, nema ættingjar keppenda sem gátu farið og spurt þá sjálfa hvað væri um að vera. Aðrir, sem ekki voru í þeim sporum máttu bara bíða...án þess að vita hvers vegna. Og það er ekki skemmtilegt.
Mér finnst þulur keppnanna ekki vera að standa sig í að koma upplýsingum til áhorfenda, eins og t.a.m. í dæminu sem ég nefndi hér á undan. Einnig þegar keppnistæki voru að koma upp á braut, þá fannst mér vanta upplýsingar um hvað var að gerast. Hverjir voru að koma, um hvað voru þeir að keppa, hvaða umferð var þetta os.frv. Loks, í þau fáu skipti þegar þulur kom einhverjum upplýsingum frá sér, þá var það þegar bílarnir voru komnir upp á braut og byrjaðir að hita upp fyrir rönnið, og ekki nokkur maður heyrði múkk. Það á ekki að vera þannig að aðstandendur keppna geri ráð fyrir að þeir sem eru mættir til að horfa viti allt um alla, séu persónulegir vinir keppenda...þekki allar reglur og viti nákvæmlega hvað sé að gerast. Viljum við ekki fá fleiri áhorfendur? Það verður engin nýliðun meðal áhorfenda sé þetta svona....enginn nennir að koma til að horfa bara og vita ekkert hvað er að gerast. Til að laða að folk verður þetta að breytast.
Annað langar mig að nefna. Það myndi gera upplifunina af keppninni miklu skemmtilegri fyrir alla áhorfendur ef t.d. væri gefinn, með þúsund króna miðanum, lítill bæklingur með upplýsingum um keppendur og keppnistæki o.fl. Þetta þarf ekki að vera flókið. Samabrotið A4 blað með fyrrnefndum upplýsingum. Auk þess þarf þetta ekki að vera dýrt, tæknin til að framkvæma þetta er til staðar nánast á hverju heimili nú til dags."
Með kveðjum og vonum um bót og betrun...
Jakob Jónsson