Sælir félagar.
Þessi umræða um að keppendur eigi að fá greiðslu fyrir að keppa skýtur alltaf upp kollinum reglulega hér heima, og þá í samhengi við það að það sé dýrt að keppa í mótorsporti á Íslandi.
Nú skulum við taka þetta örlítið saman hvernig þetta er og hefur verið gegnum árin!
Í fyrsta lagi, þá þurfa sum þessara félaga að reka mannvirki og/eða félagsheimili, eða að eyða peningum í að gera viðkomandi keppnissvæði tilbúin fyrir keppni kannski oft á ári og það kostar mikla fjármuni.
Í öðru lagi, þá þarf að reka keppnina sjálfa með öllum þeim tilkostnaði sem það kostar að reka slíka keppni.
Í þriðja lagi er svolítið sem að vill gleymast og það er "eftirvinnsla" keppna, en það þarf að laga til á keppnissvæðum jafnvel að hefla vegi og fleira sem síðan kostar pening.
Við erum áhugamenn eins og flest allir íþróttamenn á Íslandi og verðum að haga okkur eins og þeir.
Ég efast um að það sé hægt að finna nokkurn keppnishaldara í heiminum í dag sem að borgar keppendum fyrir að mæta og keppa, það eru allir með keppnisgjöld til að standa undir þeim kostnaði sem að íþróttakeppni er og peningaverðlaun eru í raun ekki veitt nema þá til atvinnumanna eða þá af stórum af styrktaraðilum og sjálfstæðum keppnishöldurum sem að eru eingöngu í keppnishaldi samanber: NHRA, IHRA í Bandaríkjunum.
Samt þurfa keppendur hjá þessum aðilum að greiða töluvert há keppnisgjöld og atvinnu menn sínu hærri gjöld en áhugamenn.
Við hjá KK lentum í því fyrir nokkuð mörgum árum að við vorum með mjög góðar skráningar í keppnir, kannski allt að 40 keppendur, en þegar komið var að keppni þá mættu bara innan við helmingur, og ég man eftir skráningu upp á um það bil 45. keppendur en það mættu aðeins 12.!
Svona gekk þetta heilt sumar og síðan á næsta aðalfundi á eftir þá var reglum breytt og farið að taka 5000.- kr í keppnisgjald og þar af fékk keppandi endurgreitt 3000.- kr við mætingu.
Sem sagt keppnisgjaldið var orðið hvetjandi þetta gafst vel og heimtur á keppendum í keppni urðu yfir 90%, og það var farið að verða gerlegt fyrir klúbbinn að koma með alvöru auglýsingar án þess að við værum hrædd við að segja ósatt um keppendafjölda og tæki og gætum ekki staðið við það sem stóð í viðkomandi auglýsingu.
Þetta hefur að sjálfsögðu breyst í gegnum árin.
Á svipuðum tíma fór að bera á þessu umtali um að greiða ætti keppendum fyrir að mæta og var það einskorðað við torfæruna, en þá voru keppendur að fá peningaverðlaun frá nokkrum keppnishöldurum.
Það var Enskur blaðamaður hér á landi að fylgjast með alþjóða rallý á sama tíma og þessi umræða kom upp og hann sagði við mig að það væri eitt sem að við skildum passa okkur á og það væri að fara að veita peningaverðlaun,vegna þess að aldrei hefði neitt gott komið út úr svoleiðis löguðu.
Hann reyndist sannspár því að það átti það til að fara allt upp í loft út af peningaverðlaunum.
Ég man sérstaklega eftir einu atviki þar sem tveir keppendur í torfærukeppni voru mjög jafnir og að sjálfsögðu fékk sigurvegarinn verðlaunin sem í boði voru.
En þetta var bara byrjunin því að sá sem var í öðru sæti var tapsár maður mjög (mikill keppnismaður) og hann fór fram á það að keppnisstjórn myndi deila verðlaununum niður á fjölda þrauta og síðan yrði tveimur efstu borgað fyrir þann fjölda þrauta sem viðkomandi vann.
Að sjálfsögðu hafði sá í öðru sæti unnið fleiri þrautir í umræddri keppni og hefði þá samkvæmt því fengið hærri upphæð!
Nokkrum árum seinna þá kom þetta aftur upp og þá voru stofnuð "Samtök Torfæru Aksturs Keppenda" (STAK) sem áttu að vinna að þessu mikla hagsmunamáli keppenda í torfæruakstri, en þau urðu ekki langlíf. Reyndar áttu þessi samtök fyrst að heita "Samtök Keppenda Í Torfæru Akstri" en undirritaður þurfti endilega af sínum alkunna skepnuskap að skammstafa nafnið (sem reyndar vakti mikla kátínu nema hjá torfærumönnum), og það þurfti því að halda annan fund til að breyta nafninu sem var síðan breytt í "Samtök Torfæru Aksturs Keppenda" , að sjálfsögðu notaði undirritaður ásamt fleirum aldrei annað nafn á þessi samtök en það upphaflega og það skammstafað!
Það skal tekið fram að þetta var á þeim árum þegar Íslensk torfæra stóða sem hæst og var að taka inn um eða yfir 5000 áhorfendur á mörgum af keppnunum.
Vitað er að allavega einn torfærukeppandi hætti vegna þess að keppnishaldarar vildu ekki borga honum fyrir að koma og keppa, en maður kemur í manns stað og enginn er ómissandi.
Hvað varðar félagsgjöld klúbba ætla ég ekki að taka afstöðu til þeirra, en um "LÍA/ÍSÍ" keppnisskírteinið þá er undirritaður búinn að senda fyrirspurn um það gjald á þær stofnanir sem fjalla um slík mál.
Þá er bara að varpa fram einni spurningu og hún er:
Ef keppendur eru orðnir svo þreyttir á sínu áhugamáli að þeir eru farnir að heimta greiðslu fyrir að keppa, er þá ekki tími til kominn að hvíla sig á sportinu?
Keppendur athugið að þið eruð EKKI að keppa fyrir keppnishaldarann, þið eruð að keppa fyrir ykkur sjálfa og engan annan.
Keppnishaldarar eru að halda keppnir fyrir keppendur og áhugafólk um viðkomandi sport.
Áhorfendur mæta til að sjá skemmtilega keppni í sporti sem þeim finnst skemmtilegt.
Peningagræðgi fárra kostaði Íslenskt mótorsport mikið og þá sértaklega torfæruna, látum það ekki gerast aftur.
Við erum áhugamenn og reynum að vera það áfram og þróast í rétta átt innan þess ramma, bæði keppnishaldarar og keppendur.
Athugum líka að keppendur krefjast bestu aðstæðna til að geta náð sem bestum árangri og klúbbarnir reyna að verða við því, en það kostar mikla peninga í mannvirkjagerð og viðhaldi.
Og að lokum. Ekki vera að miða okkur hér heima við: F1, NASCAR, WRC, NHRA eða aðra sem eru með atvinnumenn bæði sem keppendur og keppnishaldara, við erum bara 300.000 á þessu skeri þannig að við skulum sníða okkur stakk eftir vexti.
Óraunhæfur samanburður við þessa aðila hefur nú þegar kostað okkur of mikið!
Ég vona að ég hafi getað útskýrt eitthvað með þessari langloku, en eftir að hafa staðið 30. ár í sportinu er ekki auðvelt að koma þessu frá sér í styttra máli þegar þarf að rekja söguna.
Kv.
Hálfdán.