Sælir félagar.
Gulli og 555 Imprezan keppa í sumar.
Það er ekki búið að ganga frá keppnisplani ársins nema að hluta til, en stefnt er að fyrstu keppni í Englandi í næsta mánuði. Ég reikna með að við keppum í Englandi í maí til ágúst og í október og nóvember. Í september vildum við gjarnan geta keppt á Íslandi. Samkvæmt þessu verður 555 Imprezan ekki í götuspyrnunni eða á Akureyri í júní. Það hefðum við gjarnan viljað en það gengur ekki að koma því saman vegna annarra verkefna.
Fyrsta keppnin verður 22. maí og heitir Scooby Shoot Out 2. Sú keppni verður á Elvington brautinni í York N. Þar er keppt í kvartmílu og í hámarkshraða á 1,25 mílu. Þarna verða um 100 Subaru götubílar auk 20 annarra götubíla af ýmsum tegundum, allt upp í 1.200+ hestöfl.
Við munum taka þátt í Ten Of The Best IV (TOTB 4) sem verður 31. júlí. Keppt er á Elvington brautinni. Í þessari keppni er einnig keppt í brautarakstri auk kvartmílu og hámarkshraða. Þar verða 120 – 130 götubílar af ýmsum tegundum frá Evrópu, Japan og USA. Keppnin er bæði einstaklings- og liðakeppni (10 bílar í liði). Keppt er í þremur flokkum: Framdrifs-, afturdrifs- og fjórhjóladrifsflokkum, auk úrslitakeppni milli 2ja bestu bíla úr hverjum flokki.
Í þessum keppnum verða bílar sem hafa farið míluna á 9,6 sek. og náð 201 mílu (323 km) hraða á 1,25 mílu (Árangur frá árinu 2004).
Aðrar keppnir í Englandi verða m.a. á Santa Pod brautinni. Meira um það síðar.
Það var spurt hvort við ætluðum að nota “Twisted Turbo” frá Roger Clark Motorsport sem sagt er frá í apríl hefti Japanese Performance (blaðið á að vera til sölu í ýmsum bókabúðum). Svarið við því er JÁ. (Ég vona að mér takist að láta mynd af þessu fylgja með)
Eins og Impreza var útbúinn í fyrra með standard stöðu og sæti fyrir túrbínuna var ekki hægt að ganga lengra. Ekki er mögulegt að koma fyrir stærri túrbínu. Í reynd náðum við nokkru meiru út úr 555 Imprezunni en almennt er talið mögulegt með góðu móti í götubíl; 532 hestöfl og 620 Nm. Túrbínuþrýstingur í mælingunni var 1,7 bar (25 pund), en í keppni var þrýstingurinn um 2+ bar (29,4+ pund). Almennt viðmið fyrir 2ja ltr. Imprezuvél og stærstu mögulegu túrbínu í standard stöðu er talið vera 450 – 480 hestöfl.
Vélin í 555 Imprezunni er hins vegar og verður óbreytt að stærð eða 2,0 ltr. Vangaveltur um 2,5 ltr. vél eru alveg óþarfar. Sú vél á enga möguleika í 2,0 ltr. vélina, ef verið er að leita að miklu afli og háum snúningi á vél.
Með “Twisted Turbo” verða til nýir möguleikar. Á það látum við reyna í sumar.
Það er hins vegar ljóst að hestöflin í 555 Imprezunni þurfa að verða töluverð fleiri til þess að markmið okkar um verulega lægri tíma í mílunni (10,85 sek. í fyrra) og hærri hámarkshraða (177,1 míla eða 285,0 km v/8.160 sn/mín) á 1,25 mílu náist.
En hvort hestöflin verða 50 eða 100 fleiri eða færri skiptir ekki máli. Árangurinn á brautinni í tíma og hraða er það sem mælt er.
Það er margt annað en hestöfl sem skiptir máli; m.a. uppsetning á bíl og vél, gírkassi, kúpling, dekk, þyngd bílsins og svo síðast en ekki síst ökumaðurinn. Samspil allra þátta er og verður ráðandi um árangurinn. Veikasti hlekkurinn mun ávalt takmarka árangurinn.
555 Imprezan er beinskipt og við munum nota 6 gíra dogbox. Það þýðir fjórar skiptingar á mílunni. Á TOTB 3 í fyrra var meðaltíminn sem Gulli notaði í hverja skiptingu 0,18 sek. (Er í reynd mjög stuttur tími) Þá var notaður venjulegur 6 gíra STi gírkassi. Þessar 4 skiptingar tóku því 0,72 sek.; tími sem ekki nýttist til að knýja bílinn áfram.
Ég stefni að því að opna heimasíðu í næsta mánuði. Þar verða meiri upplýsingar um 555 Imprezuna, ökumanninn, samstarfsaðila o.fl.. Nýjustu fréttir, myndir og vonandi líka stuttar vídeóklippur.
Það var spurt hvort svona spurningar væru þreytandi. Svarið er: NEI, alls ekki. Ég gleðst yfir því að þetta verkefni okkar veki áhuga og spurningar og skal gjarnan reyna að svara því sem mögulegt er.
Bestu kveðjur,
Halldór Jónsson
Team 555
http://community.webshots.com/photo/175095188/321261720UMPavE