Afmælisbílasýning Moparklúbbsins
Allir velkomnir! Ókeypis inn!
Fyrir þessari bílasýningu stendur Moparklúbburinn sem er hópur rúmlega 10 eilífðarunglinga. Á sýningunni gefur að líta bílaflota félagsmanna og vina þeirra. Sýningin er opin frá 10-22 föstudag og laugardag og 10-18 sunnudag.
Sameiginlegt áhugamál félagsmanna eru bílar frá MOPAR; en MOPARbílar eru allir bílar sem framleiddir hafa verið í Dodge, Plymouth og Chrysler verksmiðjunum.
Á sýningunni verða ný og gömul tryllitæki frá MOPAR; sum flutt ný til landsins, önnur komu í gegnum hina sálugu Sölunefnd varnarliðseigna, og enn önnur hafa verið flutt inn notuð. Þarna verða tæki fyrir fornbílakalla og kellingar, leðurgellur og leðurömmur, alheimstöffara og síunga afa, Schumacherígildi og Garlits wannabees.
Strákarnir í MOPARklúbbnum hófu að hittast reglulega 1984 og þessvegna á klúbburinn þeirra 20 ára afmæli. Félagsmenn hittast reglulega árið um kring og þá er bara rætt um hluti eins og læst mismunadrif, heita knastása, þjöppuhlutföll og áhrif mismunandi málmblandna á vélarorku. Þetta hjal fer fram undir drynjandi blúsrokktónlist og síðan eru snæddir heilsusamlegir heitir og kaldir réttir að hætti félagsmanna.
Í tilefni afmælisins hefur klúbburinn líka gert heimildarmyndina "Í skúr drekans." Þar tala félagsmenn á heimspekilegum nótum um lífið og tilveruna, auk þess sem bíla ber eitthvað á góma. Heimildarmyndin verður sýnd á sýningunni.
Gjörið svo vel að líta inn!