Sunnudaginn 27. ágúst fer fram þolaksturskeppni KK fyrir bíla á Kvartmílubrautinni - keppnin er bikarmót.
Skráningu lýkur fimmtudaginn 24. ágúst kl 23:00
Seinni skráning verður leyfð til laugardagsins 26. ágúst kl. 16:00
Til að taka þátt þarftu að hafa:
Gilt ökuskírteini
Skoðaðan bíl
Hjálm
Vera meðlimur í akstursíþróttarklúbb innan AKÍS
Skráð ökutæki þurfa vátryggingarviðauka
Reglur fyrir bíla:
http://www.akis.is/wp-content/uploads/2017/03/T%C3%ADmaat-kappakstur.pdf auk viðauka fyrir þolakstur
Keppnisfyrirkomulag í þolakstri.
Keppnin er tímaat sem stendur samfellt í 2 klukkustundir. Keppt er samkvæmt reglum AKÍS um tímaat með þeim breytingum og frávikum sem lýst er hér að neðan.
Sá vinnur keppnina sem hefur lokið flestum hringjum þegar 120 mínútur eru liðnar frá því að fyrsti keppandi ekur inn á brautina við ræsingu. Aðeins eru taldir full eknir hringir.
Hámarks fjöldi keppenda er 10.
Ökutæki
Hver ökumaður skal keppa á sama ökutæki alla keppnina. Heimilt er að skrá til keppni ökutæki sem falla í flokka 7.4, 7.5, 7.6 og 7.7 í reglum AKÍS um keppni í tímaati með þeim takmörkunum og breytingum þó sem kveðið er á um í þessum reglum um þolaksturskeppni sérstaklega.
Dekk
Dekk skulu hafa götumynstur og thread wear 220 eða hærra. Lágmarks mynsturdýpt er 3mm við upphaf keppni. Ekki má skipta um dekk á meðan á keppni stendur. Springi dekk fellur ökumaður úr keppni og skal aka beint í pitt sé þess kostur.
Bremsur
Akstri skal hagað með þeim hætti að ökutækið missi ekki bremsur. Telji brautarvörður að ástæða sé til að hafa afskipti af ökutæki t.d. vegna bremsulyktar eða ef svo virðist sem ökutæki eigi í erfiðleikum með að bremsa gerir hann keppnisstjóra viðvart sem metur ástandið og tekur ákvörðun um hvort kalla þurfi viðkomandi ökutæki í pittstopp til að huga betur að því.
Eldsneyti
Heimilt er að fylla á eldsneytistank ökutækis á meðan á keppni stendur. Áfylling skal gerð ípitti og undir eftirliti öryggisfulltrúa sem tryggir öryggi keppenda og annarra í pittinum eftir fremsta megni. Ökumaður má ekki annast eldsneytisáfyllingar sjálfur.
Ræsing
Bílar eru ræstir út með 5 sekúndna millibili við upphaf keppni. Tímamismunur keppenda í brautinni er jafnaður út í fyrsta skilyrta hvíldarhléi.
Skilyrt hvíld
Á hverri klukkustund sem keppnin stendur verður ökumaður að taka 10 mínútna samfellt hlé frá akstri. Hléinu skal varið inni í pittsvæði.
Tímamismunur keppenda við ræsingu er jafnaður út í skilyrtri hvíld á þann hátt að 5 sekúndum er bætt við hvíldartíma hvers keppanda í fyrsta hléi fyrir hvern keppanda sem á eftir honum fór í brautina við upphaf keppni. Eftir fyrsta skilyrta hvíldarhlé verða allir keppendur því komnir með sambærilegan rástíma.
Þar sem hvort hlé er 10 mínútur samfellt verður að taka hléið í síðasta lagi 50 mínútum eftir upphaf hvorrar klukkustundar aksturs. Í fyrra hléi þarf að auki að taka tillit til viðbótartíma sem þarf til að jafna út tímamismun í ræsingu. Taki ökumaður ekki hlé tímanlega rennur hann út á hvíldartíma og er fallinn úr keppni.
Pittur og pittstopp
Keppendum er heimilt að aka í pitt hvenær sem þeir telja þörf á því. Aldrei má aka úr pitt og inn á braut nema að fengnu samþykki pittstjóra sem stendur við aðgangshlið að brautinni. Hámarkshraði í pitti er 15 km á klst. Hámarkshraðatakmörkun tekur gildi um leið og ekið er inn fyrir fyrstu keilur sem marka pittsvæði og gildir fram að aðgangshliði inn á brautina. Hvert ökutæki á ákveðið stæði í pittinum sem pittstjóri úthlutar á keppendafundi fyrir keppni.
Framúrakstur
Aðeins má taka fram úr einum bíl í einu. Framúrakstri skal að fullu lokið áður en farið er fram úr næsta bíl. Brautarverðir geta metið framúrakstur ógætilegan eða að tekið sé fram úr fleiri en einum bíl í einu. Í slíkum tilfellum fær viðkomandi svart flagg við fyrsta tækifæri og tekur út hæfilega refsingu í pitti.
Refsingar
Aki ökutæki ekki rétta aksturslínu í brautinni getur keppnisstjóri ákveðið hæfilega refsingu fyrir það brot. Refsing verður að jafnaði ekki minni en sem nemur áætluðum 2x tímanum sem hefði tekið að aka rétta aksturslínu. Refsing skal tekin út með því að aka inn í pitt, bíða þar í tiltekinn refsitíma og aka að því loknu að aðgangshliði og inn á braut að gefnu leyfi pittstjóra. Ökutæki sem veita á refsingu fær svart flagg og skal þá þegar aka inn í pitt. Akstur utan hraðatakmarkana í pitti er refsiverður og ákveður pittstjóri refsinguna.Sé bláu flaggi ekki sinnt er ökutæki svartflaggað og endanleg tímarefsing ákveðin af keppnisstjóra.
Rásröð
Dregið er um rásröð keppenda á keppendafundi fyrir keppnina.
Starfsfólk
Við keppnina starfa 9 einstaklingar sem gegna eftirfarandi verkefnum.
Keppnisstjóri (1) Stýrir allri framkvæmd keppninnar. Tekur ákvarðanir í samráði við aðra starfsmenn en hefur úrslitavald í öllum ákvörðunum og getur beitt hverjum þeim tímarefsingum sem hann telur þörf á til að bregðast við atburðum á meðan á keppni stendur.
Pittstjóri (1) Stjórnar aðgengi að brautinni og öllu sem fram fer í pitti.
Brautarvörður (4) Fylgist með öryggi og ástandi brautarinnar og nánasta umhverfis. Flaggar og hefur tiltæk slökkvitæki við brautina.
Öryggisbílstjóri (1) Er til taks í öryggisbíl frá ræsingu og allt til loka keppninnar.
Öryggisfulltrúi (1) Skoðar ökutæki fyrir keppni og fylgist með eldsneytisáfyllingu ökutækja í pittinum.
Vettvangsstjóri (1) Öryggisfulltrúi sinnir þessu starfi með öðrum verkum. Sinnir eftirliti í kringum pitt og sér til þess eftir fremsta megni að áhorfendur, ljósmyndarar og aðrir sem eru á ferð í kringum brautina haldi sig utan hættusvæða eða innan markaðra öruggra svæða.
Öryggismál
Flögg eru skv. reglum AKÍS. Tímamæling er ekki stöðvuð þó gult eða rautt flagg fari á loft.
Keppnisstjórn
Keppnisstjóri fer með alla stjórn keppninnar og hefur úrslitavald í öllum ákvörðunum sem þarf að taka meðan á keppni stendur.
Brautarverðir
Brautarverðir með flögg og slökkvitæki eru staðsettir í sjónlínu til næsta manns í kringum alla brautina. Brautarvörður sem sér hættu í braut getur tekið ákvörðun um að lyfta gulu eða rauðu flaggi en skal samstundis tilkynna það í talstöð fyrir keppnisstjóra og aðra brautarverði til að heyra. Fari gult eða rautt flagg á loft tekur keppnisstjóri ákvörðun um viðbragð annarra brautarvarða.
Aðeins keppnisstjóri getur tekið ákvörðun um að gefa aftur grænt flagg í braut.
Öryggisbíll
Fari gult flagg á loft fer öryggisbíll samstundis af stað í brautina. Óheimilt er að taka fram úr öryggisbíl. Öryggisbíllinn yfirgefur brautina og ekur í pitt þegar það sem gula flagginu veldur
hefur verið lagfært og keppnisstjóri telur óhætt að leyfa hefðbundinn akstur að nýju. Á meðan öryggisbíll er í braut heldur talning ekinna hringja áfram. Fari rautt flagg á loft ber ökumanni að stöðva farartæki sitt samstundis en þó þannig að ekki valdi hættu fyrir aðra ökumenn. Keppnisstjóri getur tekið ákvörðun um að senda ryggisbíl í brautina þó rautt flagg stöðvi för allra keppenda. Keppendur skulu leitast við að greiða för öryggisbíls við slíkar aðstæður eins og þurfa þykir.
Önnur mál
Hvað það sem varðar framkvæmd keppninnar sem ekki er getið sérstaklega að ofan, reglum AKÍS um tímaat eða öðrum reglum og leiðbeiningum sem AKÍS og KK starfa eftir, er ákveðið af keppnisstjóra og starfsmönnum keppninnar eftir því sem þörf krefur. Ber keppendum að hlíta fyrirmælum þeirra í hvívetna.
Flokkar fyrir bíla:
Hot wheels
Götubílar
Breyttir götubílar
Opinn götubílaflokkur
Opinn flokkur kappakstursbíla
Skráningarfrestur.
Skráningu lýkur fimmtudaginn 24. ágúst kl. 23:00
Seinni skráning verður leyfð til laugardagsins 26. ágúst kl. 16:00 en þá bætast 2.000 kr. við skráningargjaldið
Keppnisgjöld og skráning:
ATH!! skráning telst ekki gild fyrr en keppnisgjöld hafa verið greidd
Keppnisgjald 6.000 kr. innifalið er keppnisskírteini
Við fyrstu skráningu keppenda á bílum á keppnistímabili bætast við 4.000 kr. gjald vegna slysatrygginga ökumanns.
Skráning bíla á AKÍS síðunni:
http://skraning.akis.is/keppni/82Dagskrá
Mæting 12:00 - 12:30
Skoðun 12:15- 13:00
Keppendafundur 13:15
Keppni 13:30 - 16:00
Verðlaunaafhending 16:30
Nánari upplýsingar
í síma 8221040 eða
ingimundur@shelby.is