Hvernig brigðist þú við ef þú hefðir sjálfur skráð þig til keppni í kúluvarpi á frjálsíþróttamóti, tækir nokkur köst með kúlunni en svo mundi keppnisstjórnin taka einhliða ákvörðun, án þess að vara þig við eða spyrja þig álits, um að þú værir orðinn keppandi í spjótkasti en þyrftir áfram að nota kúluna við köstin? Kúluvörpin þín yrðu svo skráð sem þau væru spjótköst og þar með yrðirðu slappasti "spjótkastari" íslandssögunnar
.
Hliðstæðar aðferðir voru framkvæmdar af keppnishaldara á Íslandsmótinu í kvartmílu 24. júní s.l. Þar skráðu undirritaðir sig í góðri trú sem keppendur í MC flokki enda var boðið upp á slíkt á vefsíðu Kvartmíluklúbbsins. Við vorum þar tveir skráðir í MC (sem leyfir mjög takmarkaðar breytingar á keppnistæki). Annar okkar datt út í tímatökum vegna bilunar en þegar sá sem eftir var ætlaði að fara sínar ferðir solo, þá kom allt í einu upp að hlið hans bíll í ST flokki (þar sem leyfðar eru miklar beytingar á bílum). Þegar gerð var athugasemd um þetta við keppnisstjórn var svarið að flokkar væru ekki keyrðir nema keppendurnir væru fleiri en tveir og að þessvegna hefði keppnisstjórn ákveðið að setja MC bílinn í ST. Við þetta vinnulag er margt að athuga og færa má rök fyrir að keppnishaldari hafi gert röð mistaka.
Alvarlegasta athugasemdin er sú að keppnisstjórn tók ákvörðunina ÁN ÞESS að upplýsa keppanda um hana fyrir fram og hvað þá að sýna keppandanum þá lágmarks virðingu að spyrja hann um hvort hann vildi færa sig um flokk og leyfa honum að velja þá flokka sem bíll hans er gjaldgengur í (hann var nefnilega gjaldgengur í fleiri en einn flokk) EÐA hætta keppni og fá keppnisgjöldin endurgreidd.
Mistök keppnishaldarans voru þessi:
1. Að láta keppendur ekki vita, þegar skráningu lauk, að ekki yrði keppt MC flokki vegna lítillar þátttöku og að bjóðast ekki til að endurgreiða keppnis- og tryggingargjald sem keppendur þurfa að greiða fyrir fram, ÓHÁÐ ÞVÍ hvort lágmarksþátttöku sé náð að mati keppnishaldara.
2. Að gera enga athugasemd við MC skráningu okkar við undirskrift þátttökutilkynningar í aðstöðu keppnisstjórnar á keppnisstað örfáum klukkustundum fyrir keppni þar sem skýrt er skráð á þátttökutilkynningarblaðið sem keppnishaldari fékk afhent, og er með í fórum sínum, að við séum keppendur í MC flokki.
3. Að stilla ST bíl upp við hlið MC bílsins án þess að spyrja MC keppandann álits hvort hann vildi keppa í ST flokki (eða TS flokki sem hann hefði einnig getað) eða hætta keppni og fá keppnisgjöld og tryggingar (11.000 kr.) endurgreiddar.
4. Þegar skráningu lauk voru þrír bílar skráðir í ST flokkinn sem MC bílunum tveimur var bætt inn í. ST flokkurinn var því þegar orðinn löglegur og þurfti ekki að bæta við MC bílunum. Í TS flokki var hinsvegar bara skráður einn bíll svo það hefði verið skynsamlegra að bæta tveimur bílum við þar til að gera TS flokkinn gildan. Hversvegna datt keppnishaldara það ekki í hug? ST flokkurinn er sekúntuflokkur þar sem breakout reglan 11.49 er í gildi. Í tímatökum fóru tveir ST bílanna langt undir þeim tíma. Óskiljanlegt er af hverju keppnisstjórn datt ekki í hug að það mætti færa þá yfir í TS flokk þar sem aðeins einn bíll var skráður fyrir. Slík ráðstöfun hefði gert TS og ST flokkana gilda að því gefnu að báðir MC keppendurnir og tveir ST keppendurnir sem fóru lágar ellefu hefðu samþykkt slíkar uppástungur keppnisstjórnar. Sá eini keppandi sem skráður var í TS hefur tjáð okkur að hann hafi fengið einn vin sinn til að keyra með sér í flokknum til að hafa eitthvert company. Hversvegna var þessum tveimur lágu 11 sekúntna bílum ekki boðið að færa sig þangað?
5. Ef keppnishaldari mun koma með þau mótrök að keppendur ættu að vita um þessa þriggja bíla reglu þá er svar okkar þetta: Á vef keppnishaldarans sjálfs, á keppnisdeginum 24.06. s.l. , er eftirfarandi 6 ára gamli orðrétti texti það sem fannst um lágmarksþátttöku í keppni: „Hér má sjá þá flokka sem eru í boði 2011, lágmark 2 keppendur þurfa að vera í viðkonamdi flokk til að hann sé keyrður.“ Þarna stangast því á upplýsingar á vefsíðu keppnishaldara og ákvörðun keppnishaldara. Ef keppnishaldari bendir á að á AKÍS síðunni standi: „Þar sem annað er ekki tekið fram skal lágmarksfjöldi keppenda sem hefja keppni í hverjum keppnisflokki vera þrír til að úrslit telji til Íslandsmeistarastiga“ þá er því til að svara að ákvæðið um fjölda snýst bara um hvort keppnin sé til íslandsmeistarastiga. Að sjálfsögðu mætti keyra flokk með tveimur keppendum ef þeir óska þess, þeir fá bara engin stig.
6. Á vefsíðu AKÍS kemur fram að kærufrestur vegna flokkaskráningar lýkur 30 mínútum ÁÐUR en keppni hefst. Á þeim tíma töldum við að við værum keppendur í MC flokki en þegar hið sanna kom í ljós var þessi kærufrestur liðinn auk þess sem gagnslaust hefði verið að kæra keppnishaldarann sem fer sjálfur með úrskurðarvald í slíkum kærumálum.
Að ofangreindu virtu er álit undirritaðra að framkoma keppnishaldara í garð okkar 24.06. s.l. megi annað hvort kalla vísvitandi blekkingu eða að vankunnátta keppnishaldara hafi valdið röð ofangreindra mistaka.
Undanfarin ár hefur KK lyft grettistaki varðandi aðstöðu og umhverfi til keppnishalds og skal því hrósað hér. En það eitt og sér dugar þó ekki til að laða að keppendur ef keppnishaldari kemur fram við keppendur af fálæti og virðingarleysi eða ef vankunnátta hans er á því stigi að keppendum er att út í tóma vitleysu.
Hér hafa ofangreind vinnubrögð keppnishaldara leitt til að tveir keppendur, með áratuga langa keppnisreynslu, munu ekki taka þátt kvartmílukeppnum fyrr en vinnubrögð keppnishaldara hafa lagast varðandi ofangreind atriði. Fyrsta skrefið í þá átt væri að keppnishaldari endurgreiði skráningar- og tryggingarkostnað okkar (samtals 21.000 kr.) sem er bara brot af kostnaði okkar við þátttökuna.
Ragnar S. Ragnarsson og Björn Gíslason