Ökuþórinn leyndardómsfulli, The Stig, sem komið hefur fram í sjónvarpsþáttunum, hefur nú verið afhjúpaður. Breska blaðið Sunday Times fullyrti um síðustu helgi að á bak við hvítan hjálm The Stig leyndist kappakstursmaðurinn Ben Collins.
Blaðið segist hafa séð reikninga, sem fyrirtæki Collins sendi breska ríkisútvarpinu BBC fyrir vinnu við þættina. Þessir reikningar, sem eru frá árinu 2003, sanni að Collins, sem er 35 ára, sé í raun The Stig.
The Stig var upphaflega svartklæddur en árið 2003 var upplýst að brellumeistarinn Perry McCarthy hefði verið í því gervi. Skömmu síðar birtist nýr Stig í þáttunum en var nú hvítklæddur.
Lengi hafa verið vangaveltur um að Collins væri í raun í gervi The Stig en það hefur aldrei verið sannað. Árið 2009 kom kappakstursmaðurinn Michael Schumacher fram í Top Gear íklæddur gervi The Stig.
Collins hefur neitað að tjá sig um þessar fréttir. Hann hefur aldrei ekið í formúlu 1 kappakstri en tekið þátt í Le Mans kappanstrinum og oft ekið bílum í áhættuatriðum í kvikmyndum.
poll her eg segi Já (yes)
http://www.guardian.co.uk/tv-and-radio/poll/2010/aug/23/top-gear-stig-television