Vegtollur á allar stofnbrautir út úr Reykjavík, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, er nú til skoðunar í viðræðum stjórnvalda og lífeyrissjóða um fjármögnun á breikkun Suðurlandsvegar.
Í viðræðunum liggur þegar fyrir sú forgangsröðun að breikkun Suðurlandsvegar milli Lögbergsbrekku og Selfoss verði fyrst á dagskrá en síðan komi Vaðlaheiðargöng og þar á eftir breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Enn síðar verði Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga.
Hugmyndin er að lífeyrissjóðir láni til verkefnanna en fái endurgreitt með vegtollum, eins og tíðkast í Hvalfjarðargöngum. Við nánari skoðun hafa menn hallast að því það gæti verið hæpið út frá jafnræðissjónarmiðum, og pólitísk erfitt, að fá Sunnlendinga til að sætta sig við vegtoll á Suðurlandsvegi en sleppa honum á sama tíma á nýbreikkaðri Reykjanesbraut.
Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, staðfestir að þetta sjónarmið sé í umræðunni, að óeðlilegt sé að veggjald færi eingöngu á Suðurlandsveg, heldur gæti verið eðlilegra að það færi þá á allar stofnbrautir út frá Reykjavíkursvæðinu, og þá einnig á Reykjanesbraut og Vesturlandsveg. Indriði tekur fram að ekkert sé ákveðið í þessum efnum og engin stefna hafi verið mörkuð í þessa veru.
Veggjald yrði einnig tekið upp við Vaðlaheiðargöng.
Ekkert liggur fyrir um fjárhæðir veggjalda né innheimtuform en sérfræðingum fjármálaráðuneytis hefur verið falið að útfæra þessar hugmyndir nánar