Sælir félagar.
Það hefur nú alltaf loðað við sýningarnar hjá okkur að fleiri mæta þangað með sín tæki en mæta til keppni.
Enda er það engin furða þar sem sýningarnar eru til þess að menn geti sýnt sín tæki og hvað þeir hafa verið að gera eða kaupa, og verið stoltir af.
Þessar sýningar hafa frá upphafi verið fjáröflun fyrir klúbbinn og líka til að leyfa einstaklingum að njóta sín.
Þá á ég við þær breytingar uppgerðir og nýsmíði sem eigendur hafa lagt í sín tæki.
Nú ætlum við líka að leggja áherslu á óuppgerð tæki og hversu mikið er til af svoleiðis tækjum sem hafa varðveist hér heima og eru sjaldan notuð.
Þar sem spyrnuíþróttin er 50 ára gömul í sumar hér á Íslandi þá erum við sérstaklega að reyna að ná í gömul sem ný spyrnutæki sem hafa tekið þátt í keppnum hér heima í gegnum árin, og gildir þá einu í hvernig standi þau eru.
Okkur langar líka að rýna inn í framtíðina og sjá framtíðar tækin sem koma til með að halda sportinu uppi um ókomin ár.
Hvað elstu bílana varðar þá ætlar Fornbílaklúbburinn að koma með nokkur af tækjum félagsmanna og vera með veglegan bás hjá okkur, og svo á hinum endanum er til að mynda AÍH (Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar) sem er nýtt félag sem kemur að uppbyggingu aksturssvæðisins í Kapelluhrauni með okkur í KK.
Ég hef einnig heyrt að félagar í "BMW Krafti" ætli að mæta og kynna sína stafsemi.
Og þá eru ótaldir allir þeir mótorhjólaklúbbar sem ætla að mæta.
En það eru allir velkomnir með sín tæki meðan að húsrúm leyfir.