Eins og fleiri hef ég orðið fyrir verulegum vonbrigðum með að lögreglustjóraembætti höfuðborgarsvæðisins afturkallaði leyfi KK til keppnishalds en snérist svo hálfpartinn hugur og bjó til tímabundið (sic) leyfi fyrir klúbbinn. Það er mér með öllu óskiljanlegt (með tilliti til þess óútreiknanlega veðurfars sem við búum við) hversvegna þetta leyfi var ekki látið gilda fyrir eina keppni óháð hvenær tækist að halda hana. Hinsvegar geta ástæður þessa hringlandaháttar með leyfisveitingar til KK varla verið alvarlegar fyrst lögreglustjóraembættið telur engu að síður í lagi að gefa KK þetta tímabundna leyfi. Vonandi rann það upp fyrir lögreglustjóraembætti höfuðborgarsvæðisins að ein sterkasta regla stjórnsýslulaga þeirra sem embættinu ber að fara eftir við ákvarðanir sem þessar er svonefnd meðalhófsregla sem er svona:
Meðalhófsreglan.
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til."
(Meðalhófsreglan á rætur í Þýskalandi á 19. öld og varð til þegar farið var að flytja verkefni frá lögreglu til annarra stjórnvalda og er í dag ein meginreglna stjórnsýslulaga í siðuðum þjóðfélögum).
Ég tel að lögreglustjóraembættið hafi ekki gert sér grein fyrir að með því að draga til baka leyfið tók það íþyngjandi ákvörðun sem kom niður á KK og keppendum í íþróttinni og áhorfendum og hafi þar með líklega brotið stjórnsýslulög.
Í 21. aldar stjórnsýslu gefa yfirvöld yfirleitt ákveðna fresti til að gera útbætur en banna ekki starfsemi stofnana, fyrirtækja eða félaga (gott dæmi um þetta er starfsemi heilbrigðiseftirlitsins). Lokanir og bönn eiga bara við í alvarlegum tilvikum. Með því að snúast hugur og gefa KK tímabundna leyfið viðurkennir lögreglustjóraembættið að hér væri ekki um alvarlega hluti að ræða (hvað sem það nú annars var).
Vægari aðferðir hljóta því að vera næsta skrefið á löggustöðinni og þar með gagnrýnni afstaða þar á bæ til álits þeirra sem eiga að veita umsagnir um leyfi til akstursíþróttakeppna sbr. spánnýja reglugerð nr. 507/2007.
Ragnar