Brimborg tekur þátt í byggingu æfingabrauta
Bílaáhugamenn á íslandi hafa svo árum skiptir talað fyrir þeim hugmyndum að hér á landi væru til afmarkaðar akstursbrautir til nota við umferðarkennslu og akstursíþróttir. Þetta er sjálfsögð krafa en því miður hefur árangurinn verið lítill. Við höfum kvartmílubrautina sem er góð sem slík og á Kvartmíluklúbburinn heiður skilinn fyrir að hafa staðið að uppbyggingu og rekstri hennar. Í umræðunni er að byggja braut í Reykjanesbæ og á Akranesi. Brimborg styður þær hugmyndir af heilum hug. En engar alhliða æfingabrautir eru til í dag. Það er staðreynd þó það sé líka staðreynd að þeir sem stunda akstursíþróttir ættu auðvitað að hafa jöfn tækifæri til að stunda þess konar íþrótt eins og aðrar íþróttir. Til þess þarf afmarkaðar brautir vegna þess að ekki er ásættanlegt að stunda akstursíþróttir á almennum umferðargötum. Það er ljóst og um það deilir enginn.
Við frumsýningu Brimborgar á Ford GT á Akureyrarflugvelli er flugvöllurinn tákn um öruggt og afmarkað aksturssvæði og með því að velja flugvöll sendir Brimborg skilaboð til viðeigandi aðila að sérhæft og afmarkað æfingasvæði vantar fyrir bílaáhugamenn á Íslandi.
Ford GT hjálpar við að reisa æfingabraut
Það er afar spennandi en um leið krefjandi að hafa ákveðið að kaupa Ford GT til landsins. Fyrir okkur hjá Brimborg voru þrjár meginástæður fyrir þessum kaupum. Í fyrsta lagi vildum við leggja okkar að mörkum og nýta Ford GT sem tákn um það hvernig beisla megi kraft með ábyrgð og þannig styðja þær hugmyndir sem eru í gangi um að byggja afmarkaðar æfingabrautir fyrir unga sem reynda ökumenn. Í öðru lagi er Ford GT einhver merkilegasta goðsögn bílaheimsins og því fengur að því að fá bílinn til Íslands fyrir alla bílaáhugamenn. Í þriðja lagi sýnir Ford GT þá hátækni og þann metnað sem Ford Motor Company hefur yfir að ráða við bílaframleiðslu.
Við sem bílaáhugamenn skiljum allir spennuna sem því fylgir að kaupa svo einstakan bíl, en við verðum um leið að hugsa um ábyrgðina sem við þurfum að bera í umferðinni – sérstaklega þegar jafn kröftugur bíll og Ford GT á í hlut.
Beislum kraft með ábyrgð
Akstur kraftmikilla bíla, sem hefur fjölgað hér á landi undanfarin ár og aukinn hraðakstur, einkum ungra ökumanna með oft hræðilegum afleiðingum, krefst þess að bílainnflytjendur axli samfélagslega ábyrgð í síauknum mæli. Eins og þið væntanlega vitið er kjörorð okkar hjá Brimborg “Öruggur staður til að vera á” og við ákváðum strax, eins og áður sagði, að nota Ford GT til að varpa ljósi á umferðaröryggi og mikilvægi þess að bera ábyrgð í umferðinni.
Sumir gætu vissulega spurt hvort það sé ekki svolítil þversögn að reyna að stuðla að auknu umferðaröryggi með innflutningi ofursportbíls á borð við Ford GT. Við teljum að svo þurfi alls ekki að vera – heldur þvert á móti geti Ford GT verið tákn um hvernig eigi að beisla kraft með ábyrgð. Og það ætlum við að sýna með komu Ford GT hingað til lands.
Ford GT er táknmynd öryggis
Kröftugir sportbílar og jafnvel ofursportbílar á borð við Ford GT þurfa nefnilega ekki að vera táknmynd hættunnar í umferðinni, eins og svo oft vill því miður verða. Þeir geta allt eins verið táknmynd öryggis, því það er eins með bíla og flest önnur mannanna tól að það er sjálfur notandinn sem ræður því hvort bíllinn sé hættulegur eða ekki.
Þess vegna höfum við hjá Brimborg ákveðið að nota tækifærið við kynninguna á Ford GT til að hvetja til öryggis í umferðinni. Við munum því nota öll tækifæri sem gefast til að sýna fram á hvernig hægt sé að beisla kraft með ábyrgð, enda er það grundvallaratriðið við akstur allra farartækja.
Ford GT sameinar bílaáhugamenn og yfirvöld
Ford GT á að vera sameiningartákn áhugamanna um sportbíla og þeirra sem hvetja til öruggrar umferðarmenningar. Það er mikilvægt að þessir aðilar geti komið saman og rætt málin – og það er okkar meining að gera Ford GT að samkomustað þessara aðila, sem hingað til hafa oft ekki náð saman.
Það er meðal annars vegna þessarar áherslu á öryggi að við frumsýnum Ford GT á Akureyrarflugvelli með góðfúslegu leyfi flugvallaryfirvalda – á afmörkuðu og öruggu svæði. Það er jafnframt táknrænt að keyra Ford GT á flugvallarsvæðinu, því eins og við þekkjum er öryggi óvíða jafn mikið og í flugi – og það mættum við í hinni hefðbundnu umferð taka okkur til fyrirmyndar.
Bílaáhugamenn eiga æfingabrautir skilið
Þess vegna munum við líka á næstu mánuðum nota Ford GT til að kynna mikilvægi þess að byggja afmarkaðar æfingabrautir til umferðarkennslu og akstursíþrótta, þannig að áhugasamir ökumenn, ungir sem aldnir, geti lært að beisla kraft ökutækja sinna með ábyrgri hegðun.
Að lokum. Framundan eru bíladagar á Akureyri. Bílaáhugamenn taka sig margir saman og keyra norður. Það ríkir spenna, gleði og eftirvænting. Þar safnast menn og konur saman til að stunda sitt áhugamál og horfa á glæsilega bíla.
Sýnum ábyrgð og mætum heil á mótstaðinn.
Virðingarfyllst
Brimborg ehf.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri