Tekið af mbl.is
Breytingar vegna Suðvesturlína samþykktar
Skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðarbæjar samþykkti í dag breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 hvað varðar Suðvesturlínur og gerði tillögu þess efnis að bæjarstjórn geri slíkt hið sama.
Í fundargerð skipulags- og byggingaráðs segir að um sé að ræða breytingu á skipulaginu hvað varðar flutningskerfi raforku til samræmis við áætlanir Landsnets um styrkingu raforkuflutningakerfis á Suðvesturlandi.
Breytingarnar eiga við raflínur og jarðstrengi frá Geithálsi og Sandskeiði að núverandi og fyrirhuguðum tengivirkjum í Hafnarfirði og áfram þaðan að álverinu og til Suðurnesja.
Sá fyrirvari er gerður um nákvæma legu línustæða að þeim verði hnikað til ef áður óþekktar fornminjar eða náttúruminjar koma í ljós við nánari athugun Hafnarfjarðarbæjar.