Sæll Guðmundur
Af því að þú fórst að rifja upp þessa góðu tíma frá liðinni öld datt mér í hug ein góð saga úr Kúagerðinu.
Það var um miðja nótt að vorlagi minnir mig í blíðskaparveðri að nokkrir bílar ætluðu að keppa í spyrnu, eins og svo oft fylgdi með hverjum bíl nokkrir ungir menn og jafnvel kvenfólk. Þetta var á þeim árum þegar Kryppan var sem sprækust og bílar úr öðrum sveitarfélögum á Stór Hafnarfjarðarsvæðinu komu og fengu að reyna sig við hana. Þegar menn voru klárir var byrjað að spyrna og nokkur reis farin, en svo tökum við eftir manni sem kemur labbandi neðan frá sumarbústöðunum og sjónum. Maðurinn kemur nær veginum og sjáum við að hann er með haglabyssu í hönd, og varð okkur öllum hverft við.
Maðurinn kemur svo að veginum og sest í kantinn svona 150 til 200 metra frá okkur og er all vígalegur svona í rökkrinu. Og vorum við viss um að þarna væri bandóður maður sem við hefðum vakið af værum blundi.
Það færa sig nú allir bakvið bílana og rætt er hvað skuli gera, enginn þorir jú að fara að tala við kallinn og leiðin heim liggur fram hjá honum.
Við ákveðum svo að fara bara öll og ræða málin og vita hvað hann vilji og biðjast afsökunar á framferði okkar.
Svo gengur hersingin af stað í áttina til kallsins, og þegar við komum að honum segir hann "hvað kemst þetta ekkert áfram hjá ykkur ".
Þetta var þá bara forvitin minnkabani sem hafði legið á minnk niður í fjörunni og kom til að horfa á bílana reisa.
Þetta var mikill léttir og var mikið hlegið að þessu.
Þetta voru ógleymanlegir tímar.
Þakka áheyrnina
Kveðja
Maggi
Þessi mynd er tekin eina nótt fyrr á öld