Author Topic: AKÍS - almennar keppnisreglur  (Read 2429 times)

Offline SPRSNK

  • Stjórn KK
  • Staged and NOS activated
  • *****
  • Posts: 1.807
    • View Profile
AKÍS - almennar keppnisreglur
« on: November 09, 2017, 01:00:40 »
Akstursíþróttasambands Íslands
Keppnisreglur

1. Almennt Reglur þessar gilda um allar keppnir í akstursíþróttum á Íslandi eins og þær eru skilgreindar af FIA.
 
Keppnir eru haldnar eftir lögbók FIA (e. International Sporting Code (ISC)), keppnisreglum FIA, landsreglum Akstursíþróttasambands Íslands (AKÍS) og keppnisreglum viðkomandi keppni.
 
Komi upp misræmi á keppnisreglum og landsreglum AKÍS, þá gilda landsreglur AKÍS, sé misræmi á landsreglum og reglum FIA þá gilda reglur FIA.

2. Keppnisdagatal Keppnisdagatal næsta keppnistímabils skal liggja frammi fyrir 30. nóvember ár hvert.

3. Keppendur Keppandi sem skráður er í akstursíþróttafélag innan vébanda AKÍS hefur rétt til þátttöku í aksturskeppnum. Keppandi skal framvísa gildu félagsskírteini á keppnisstað ásamt keppnisskírteini frá Akstursíþróttasambandi Íslands / AKÍS.
 
Hlutgengi keppenda er háð aðild að félagi innan ÍSÍ og að félagið standi í skilum með skýrslugerðir til ÍSÍ í samræmi við gr. 8.1 í lögum sambandsins.
 
Keppandi keppir aðeins fyrir eitt félag á hverju keppnistímabili.  Félagaskipti þurfa að eiga sér stað fyrir fyrstu keppni er viðkomandi keppir í.
 
Þar sem annað er ekki tekið fram skal lágmarksfjöldi keppenda sem hefja keppni í hverjum keppnisflokki vera þrír til að úrslit telji til Íslandsmeistarastiga. Þá þurfa að vera að lágmarki þrjár keppnir á hverju keppnisári í sama keppnisflokki til að stig úr þeim flokki telji til Íslandsmeistara.
 
Keppnisgjald keppnishaldara skal greitt samkvæmt upplýsingum við skráningu í keppnina. Einungis skráður keppandi og liðsstjóri hafa rétt til þess að koma fram ábendingum, kærum og kvörtunum til keppnishaldara.

4. Framkoma og ábyrgð
 
Keppandi og þjónustulið hans skal koma heiðarlega og drengilega fram við keppinauta sína og eigi beita óleyfilegum brögðum. 
 
Afskipti af úrslitum Hver sem tengist, eða rökstuddur grunur er um að tengist, beint eða óbeint, ráðagerð um óeðlileg afskipti af úrslitum keppni með þeim hætti að ekki samræmist íþróttamannslegum leikreglum skal sæta viðurlögum sem ákvarðast á grundvelli alvarleika máls og felast í eftirfarandi: ● Keppnisbanni, tímabundnu eða ótímabundnu ● Tímabundnu eða ótímabundnu banni frá allri starfsemi tengdri akstursíþróttum ● Í alvarlegum tilfellum skal útiloka viðkomandi frá allri þátttöku í akstursíþróttum eða akstursíþróttamálum ævilangt.
 
Misbjóða öðrum Ávallt skal sýna dómurum og starfsmönnum keppninnar tilhlýðilega virðingu og hvorki fara niðrandi orðum um þá, keppendur né áhorfendur og nota samfélagsmiðla á ábyrgan máta og hafi kynnt sér Siðareglur AKÍS fyrir samfélagsmiðla.
 
Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt og stöðu að öðru leyti skal sæta keppnisbanni í að minnsta kosti eina keppni. Jafnframt skal viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000.
 
Áhorfandi eða áhorfendur sem misbjóða öðrum á slíkan máta skulu sæta að minnsta kosti tveggja ára banni á akstursíþróttaviðburði.
5. Rásnúmer Rásnúmer í hverri keppnisgrein eru gefin út af Akstursíþróttasambandi Íslands í samráði við keppnisráð hverrar greinar. Rásnúmer eru yfirleitt byggð á lokastöðu meistaramóts fyrra árs. Nýir ökumenn fá rásnúmer eftir að skráning þeirra er staðfest og gefin út.
 
6. Leyfi fyrir keppni Til þess að mega halda aksturskeppni þarf keppnishaldari, að vera aðili að Akstursíþróttasambandi Íslands og sækja um leyfi til samræmis við það sem stendur í Reglugerð um akstursíþróttir 507/2007 með síðari breytingum (​sjá hér​), svo og Verklagsreglum Ríkislögreglustjóra fyrir akstursíþróttir (​sjá hér​). Samkvæmt þeim verður að fá umsögn Akstursíþróttasambands Íslands til að mega halda keppni.

7. Keppnishaldari Keppnishaldari er akstursíþróttafélag sem ber ábyrgð á framkvæmd keppni. Akstursíþróttasamband Íslands sér um umsagnir vegna keppna í akstursíþróttum.   Með beiðni um umsögn þurfa að fylgja eftirfarandi gögn: ● Ábyrgðartrygging vegna framkvæmdar keppninnar ● Leiðarlýsing og tímaáætlun, ef við á ● Samþykki veghaldara, ef við á ● Samþykki sveitarstjórnar, ef við á ● Umsögn Akstursíþróttasambands Íslands ● Afrit eða vísun í keppnisreglur ● Nafn, kennitala, sími og tölvupóstur helstu stjórnenda keppninnar að lágmarki keppnisstjóri, öryggisfulltrúi, dómnefndarmenn og skoðunarmaður. Þar sen það á við þarf viðkomandi starfsmaður að vera á lista AKÍS yfir viðurkennda helstu starfsmenn keppni
 
Keppnishaldara er bent á reglugerð um akstursíþróttir 594/2013 svo og verklagsreglur Ríkislögreglustjóra fyrir akstursíþróttir um frekari upplýsingar og skilyrði fyrir aksturskeppnum.
 
8. Umsagnarferli Áður en unnin er umsögn um keppni þarf keppnishaldari að vera búinn að greiða umsagnargjald samkvæmt verðlista. Greitt er inn á reikning Akstursíþróttasambands Íslands: kt. 660908-0720 reikningur 537-26-851.
 
Keppnisstjóri sækir um umsögn níu dögum fyrir keppni með því að senda tölvupóst á netfangið akis@ais.is með eftirfarandi upplýsingum um hverja keppni:
 
● Kvittun fyrir greiðslu umsagnargjalds
● Keppnisgrein ● Keppnisstaður, leiðarlýsing og tímaáætlun ● Dagsetning / dagsetningar ● Ábyrgðarmaður / Keppnisstjóri – nafn, kennitala, sími og tölvupóstur ● Öryggisfulltrúi – nafn, kennitala, sími og tölvupóstur ● Skoðunarmaður – nafn, kennitala, sími og tölvupóstur

9. Nauðsynlegar upplýsingar fyrir keppni Með öllum umsóknum um keppni þarf að fylgja dagskrá, sérreglur (ef einhverjar eru), hvernig keppendur skrá sig ásamt staðsetningu upplýsingatöflu. 
 
Þessar upplýsingar þarf að birta eigi síðar en 5 dögum fyrir keppni.
 
Dagskrá Dagskrá innihaldi almennar upplýsingar um keppnina, stað og dagsetningu, nöfn keppenda og númer keppnistækja, forgjöf ef við á, verðlaun og nöfn helstu stjórnenda.
 
Helstu stjórnendur Til helstu stjórnenda heyra keppnisstjóri, skoðunarmaður, öryggisfulltrúi, og dómnefnd.  Að auki dómarar og pittstjóri þar sem það á við.
 
Sérreglur  Heimilt er að gefa út sérreglur sem þá skulu samþykktar af keppnisráði hverrar greinar. Sérreglur mega innihalda dagskrá keppninnar og allar þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram.
 
Skráning keppenda  Skráning keppenda fari fram í gegnum Mótakerfi AKÍS, nema það sé ekki unnt af tæknilegum ástæðum. 
 
Upplýsingatafla keppninnar Á upplýsingatöflu keppninnar eru allar upplýsingar um keppnishaldið birtar opinberlega í tímaröð, þar sem skjöl, ákvarðanir og úrslit eru tímasett. Þar skulu vera öll skjöl samkvæmt 7. grein ásamt ákvörðunum keppnisstjórnar og dómnefndar og úrslitum keppninnar. Upplýsingatafla keppninnar skal staðsett þar sem keppendur og starfsmenn eiga auðvelt aðgengi að henni. Heimilt er að staðsetningin sé á vefnum.
 
Hægt er að nota eyðublað sem er aðgengilegt á vef sambandsins undir liðnum AKÍS | Reglur - Eyðublöð. 

10. Skráningarfrestur Keppnishaldari skal auglýsa skráningu í hverja keppni minnst 15 dögum fyrir keppni. Keppendalista skal senda á Akstursíþróttasambandi Íslands þegar skráningu er lokið í tölvupósti á akis@ais.is

11. Starfsmenn keppninnar Keppnistjórn skal skipuð hið minnsta keppnisstjóra, skoðunarmanni og öryggisfulltrúa sem hafa gild réttindi AKÍS til þess að sinna þeim störfum.
 
Dómnefnd skal skipuð þrem hæfum mönnum þar af einn dómnefndarfulltrúi með réttindi og samþykktur af Akstursíþróttasambandi Íslands og vera formaður dómnefndar (sjá nánar í ISC).
 
Starfsmenn keppninnar skulu skrifa undir sérstaka staðfestingu þess efnis að þeir fari eftir reglum keppninnar, almennum keppnisreglum AKÍS ásamt International Sporting Code (ISC).
 
Keppnisstjóri, formaður dómnefndar, dómarar, skoðunarmenn og öryggisfulltrúar skulu vera af lista AKÍS yfir samþykkta starfsmenn og er þeim óheimilt að keppa í viðkomandi keppni.  Til viðbótar geta skráðir starfsmenn keppninnar verið: ● Ritari ● Brautarstjóri ● Pittstjóri ● Ræsir ● Tengiliður keppenda ● Þulur ● Fjölmiðlafulltrúi

12. Keppnisstjóri Keppnisstjóri ber ábyrgð á framkvæmd keppni.
 
Eftirfarandi skjöl þarf keppnisstjóri að prenta út og hafa aðgengileg meðan keppni fer fram: ● Ábyrgðartrygging vegna framkvæmdar keppninnar ● Leiðarlýsing og tímaáætlun, ef við á ● Samþykki vegamálastjóra, ef við á ● Samþykki sveitarstjórnar ● Umsögn Akstursíþróttasambands Íslands ● Leyfi viðkomandi lögregluembættis / sýslumanns ● Afrit eða vísun í keppnisreglur ● Nafn, kennitala, sími og tölvupóstur stjórnenda keppninnar
 
Keppnisstjóri má hvorki gegna embætti öryggisfulltrúa né skoðunarmanns.
 
13. Skoðunarmaður Öll keppnistæki skulu fara í gegnum keppnisskoðun og standast hana fyrir keppni. Ökumaður, ökumenn eða liðsstjóri skulu vera viðstaddir keppnisskoðun, þó í samræmi við reglur keppninnar. Skylt er að prófa bremsur í hverri skoðun. Skoðunarmaður samþykkir með keppnisskoðun flokkaskráningu keppenda. Skoðunarmaður ber ábyrgð á að öryggisatriði ökutækis séu í lagi og að búnaður keppenda sé samkvæmt stöðlum FIA.
 
Skoðunarmaður ber ábyrgð á að keppendur séu með gilt keppnisskírteini AKÍS og gilt ökuskírteini.
 
Fyrir hvert keppnistæki er fyllt út skoðunarskýrsla sem skal undirrituð af skoðunarmanni og keppanda.
 
Skoðunarmaður hefur heimild til að fara fram á að tjónað eða skemmt keppnistæki sé lagað áður en það fær rásleyfi eða að hefja keppni að nýju.  Þá getur skoðunarmaður meinað keppanda að taka þátt í keppni hvenær sem er telji hann viðkomandi ekki hæfan til að keppa.
 
Skoðunarmaður ber ábyrgð á að skráningarskyld keppnistæki séu „ábyrgðartryggð sérstaklega“ – það er að þeir hefji ekki keppni nema hafa ​tryggingaviðauka, ​eða skriflega yfirlýsingu frá tryggingarfélagi um að þess þurfi ekki.
 
Keppnishaldari skal fjölfalda skoðunarskýrslur og afhenda skoðunarmönnum fyrir keppni.
 
Eyðublöð fyrir skoðunarskýrslur eru aðgengileg á vef sambandsins: http://www.ais.is/log-og-reglur/
 
Innan viku frá lokum keppni skal skoðunarmaður senda niðurstöður keppnisskoðunar á akis@ais.is

14. Öryggisfulltrúi Öryggisfulltrúi ber ábyrgð á að framkvæmd keppninnar stefni ekki áhorfendum, starfsmönnum eða keppendum í hættu.
 
Öryggisfulltrúi hefur heimild til að stöðva keppni.
 
Verði slys á fólki ber öryggisfulltrúa að gera skýrslu um atvikið, lýsa aðstæðum og meta mögulegar orsakir. Hann hefur heimild til að taka keppnistæki sem lenda í slíku atviki til frekari skoðunar áður en keppandi fær aðgang að því aftur.  Sú skoðun má fara fram eftir að keppni lýkur.

15. Dómnefnd Dómnefnd er æðsta vald á keppnisstað. Hún ber ábyrgð á að framkvæmd keppna sé eftir reglum, að úrslit séu birt og úrskurðar um kærur sem berast. Dómnefnd hefur vald til að framfylgja reglum AKÍS, ÍSÍ og FIA ásamt sérreglum keppninnar.
 
Sjá nánar í Reglugerð AKÍS um dómnefndir.

16. Þjónustulið keppanda Þeir sem eru í þjónustuliði keppanda eru skráðir hjá keppnishaldara og á ábyrgð viðkomandi keppanda.

17. Myndatöku- og fjölmiðlafólk Sérstakar reglur eru um aðgang myndatöku- og fjölmiðlafólks að aksturskeppnum á vegum AKÍS.
 
Reglurnar eru aðgengilegar á vef AKÍS ásamt sniðmátum eins og við á.
 
18. Fundur með keppendum Fundur með keppendum skal haldinn minnst 15 mínútum fyrir keppni. Mæti keppandi eða fulltrúi hans ekki á fundinn getur honum verið vísað úr keppni.

19. Framkvæmd keppninnar Við keppnir á brautum skal ávallt fylgja þeim reglum sem settar eru fram af Akstursíþróttasambandi Íslands og sérreglum fyrir hverja keppnisgrein.
 
Þegar keppni er í gangi skulu eftirfarandi öryggisatriði vera á staðnum. ● Sjúkrakassi ● Slökkvitæki ● Sími ● Afrit af starfsleyfi ● Afrit af tryggingaskírteini
 
Keppnisstjórn verður að tryggja nægjanlegan fjölda starfsmanna til að: ● Stjórna áhorfendum ● Stjórna umferð keppenda ● Hafa eftirlit með framkvæmdinni
 
Öllum starfsmönnum verður að kynna notkun slökkvitækja og hvernig á að bregðast við þeim atburðum sem kunna að gerast á meðan á keppni stendur.
 
Allir starfsmenn keppninnar eiga vera klæddir í öryggisvesti til aðgreiningar frá áhorfendum.
 
Undir engum kringumstæðum má leyfa umferð tækja eða gangandi fólks inn á brautum meðan á keppni stendur.
 
Reykingar og neysla áfengra drykkja á eða við íþróttamannvirki eru bannaðar og skal starfsfólk framfylgja því.
 
Hafa skal sérstakt eftirlit með dýrum sem kunna að koma með fólki, öll dýr skulu vera í taumi og fjarri öllum tækjum á meðan á keppni stendur. Gæta skal þess að viðkomandi hafi stjórn á dýrinu ef eitthvað kynni að koma uppá.
 
Telji keppnisstjórn að loka þurfi viðgerðarsvæði fyrir óviðkomandi, er það heimilt, t.d. með skráningu á aðstoðarmönnum keppenda.
 
Tryggja skal að olíur og aðrir vökvar fari ekki niður í jarðveginn meðal annars með því að keppendur noti hlífðardúka þegar unnið er með olíur og eldsneyti og úrgangsolíu sé safnað í viðurkennda olíutanka.
 
Endurnýtanlegur úrgangur verði flokkaður og skilað til endurnýtingar. Spilliefnum verði skilað til viðurkenndra móttökuaðila.

20. Kærur Kærufrestur er 30 mínútur eftir að úrslit eru birt, nema annað sé tekið fram í reglum keppninnar
 
Kærur vegna flokkaskráninga skulu berast minnst 30 mínútum fyrir keppni, nema annað sé tekið fram í reglum keppninnar.
 
Kærur skulu gerðar samkvæmt alþjóðalögbók FIA. Undirritaðar kærur ásamt kærugjaldi skulu afhentar keppnisstjóra eða staðgengli hans innan tilsetts kærufrests. Kærugjald er samkvæmt verðskrá AKÍS.

21. Áfrýjanir Áfrýjun til áfrýjunardómstóls ÍSÍ Heimilt er að áfrýja til áfrýjunardómstóls ÍSÍ þeim málum Dómstóls AKÍS, sem varða Ólympíusáttmálann eða túlkun á honum. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ ákveður í þessum tilvikum hvort kæruatriði séu þess eðlis að hann eigi um þau að fjalla. Hafni áfrýjunardómstóll ÍSÍ kæruatriðum áfrýjanda er málinu þar með endanlega lokið. 
 
Endanleg niðurstaða  Dómur áfrýjunardómstóls AKÍS er endanlegur og bindandi fyrir málsaðila. Verður þeim dómi ekki skotið til annarra dómstóla innan íþróttahreyfingarinnar. Jafnframt skuldbinda aðilar sig til að skjóta ágreiningi sem dæmt hefur verið um af áfrýjunardómstóli AKÍS ekki til almennra dómstóla.

22. Frestun og framhald keppni Framhaldskeppni:​ Hafi keppni byrjað og ekki hægt að halda áfram vegna utanaðkomandi ástæðna eins og til dæmis veðurs eða birtu er heimilt að halda sérstaka framhaldskeppni innan 10 daga.
 
Nýja dagsetningu framhaldskeppni þarf að tilkynna AKÍS og keppendur eru eingöngu þeir sömu og hófu keppni.
 Frestun keppni:​ Verði af einhverjum ástæðum að fresta keppni sem komin er umsögn fyrir eiga þegar skráðir keppendur rétt á því að keppa í hinni frestuðu keppni án sérstaks endurgjalds. Þá er keppishöldurum heimilt að opna fyrir skráningu að nýju, enda sé það sérstaklega auglýst.
 
Frestun eða framhald móts ber keppnishaldara að tilkynna til AKÍS. 

23. Akstur Keppandi skal ávallt haga akstri sínum þannig að engin hætta steðji að áhorfendum, starfsmönnum og keppendum (í þeirri röð). Telji keppnisstjórn einhvern fyrrnefndu í hættu skal umsvifalaust stöðva akstur og gera viðeigandi ráðstafanir svo hættan sé ei lengur til staðar, áður en keppni er haldið áfram. Við akstur í keppni er skylda að nota hjálm og þann öryggisbúnað sem ætlaður er fyrir þá tegund aksturs.
 
Ökutæki án númera og sérsmíðuð ökutæki skulu uppfylla kröfur um smíði keppnisbifreiða frá viðkomandi keppnisgrein og skal ökumaður vera útbúinn eftir þeim reglum líka.
 
Öll slys sem kunna að verða við framkvæmd keppni skal umsvifalaust tilkynna til Neyðarlínunnar í síma 112.   Slasist áhorfandi eða alvarlegt slys verður skal stöðva keppni eins fljótt og unnt er.
 
Keppnisstjóri skal hafa öll þau gögn til staðar sem yfirvöld kunna að vilja skoða ef um slys er að ræða.
 
Loka skal fyrir akstur inn á keppnisbraut áður en keppni hefst.
 
Akstur til og frá keppni skal vera háttað samkvæmt lögum. Brot á umferðarlögum við akstur til eða frá keppni getur varðað brottvísun úr keppni.
 
Allur akstur sem veldur tjóni eða spjöllum á braut eða umhverfi brautar skal umsvifalaust stöðva og skal gera viðeigandi ráðstafanir svo slíkt gerist ekki aftur.
 
Allt það tjón sem hlýst af keppenda eða keppnisliði hans kann að vera skaðabótaskylt af honum.

24. Frágangur í lok keppni Keppendum og aðstoðarmönnum er skylt að taka allt rusl og leifar sem frá þeim kemur með sér af svæðinu eða setja í þar til gerð sorpílát. Keppnishaldari skal fara yfir svæðið og hreinsa það sem eftir liggur.

25. Úrslit Innan sólarhrings frá lokum keppni skal senda úrslit keppninnar til AKÍS. Innan fimm daga skal keppnisstjóri senda lista yfir stig til íslandsmeistara fyrir alla keppendur. Þetta á við úrslit úr heildarkeppninni ásamt öllum flokkum.
 
Á listanum komi fram fullt nafn keppanda ásamt kennitölu og auðkenni keppnistækis. Úrslitin skal senda á akis@akis.is 

26. Fjölmiðlar Til að fjölmiðlar mæti á svæðið er mælt með að senda fréttatilkynningu fyrir keppni. Fjölmiðlar vilja fá sem skýrastar upplýsingar um keppnina og á hvaða tíma og stað áhugaverðustu atburðirnir gætu orðið.
 
Keppnisstjóri getur sent fréttatilkynningu á akis@akis.is með ljósmyndum og hún verður þá sett á vef sambandsins og dreift áfram á fjölmiðla.
 
Meiri umfjöllun fjölmiðla þýðir aukinn áhugi hjá áhorfendum. Þar með koma styrktaraðilar, fleiri keppendur með betri bíla og vöxtur í
greininni.
« Last Edit: November 09, 2017, 01:09:16 by SPRSNK »