http://www.us.is/frontbanner_fraedslumyndbond/500x240.swfSjónvarpið, Stöð 2 og Skjár 1 hafa lagt Umferðarstofu lið í baráttunni fyrir bættri umferðarmenningu og fækkun umferðarslysa á Íslandi. Sjónvarpsstöðvarnar munu sýna, í dagskrá sinni, 24 fræðslumyndir sem Umferðarstofa hefur látið gera. Framleiðsla fræðslumyndanna er liður í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda.
Áhorfendur geta átt von á því að sjá fræðslumyndirnar milli dagskráliða en í þeim er fjallað um ýmis atriði sem vert er að rifja upp hvort sem farið er um á bíl, bifhjóli, eða reiðhjóli.
Sem dæmi um efnistök má nefna að fjallað er um þær reglur sem gilda um akstur í hringtorgum, val á akreinum, framúrakstur, bil á milli bíla og ýmis þau atriði sem ökumenn bifhjóla þurfa helst að varast. Fræðslumyndirnar eru frá 30 sek og upp í tæpar tvær mínútur. Umferðarstofa annaðist gerð handrits í samstarfi við fulltrúa ökukennara og félagasamtaka bifhjólamanna en Prófilm sá um framleiðslu..
Sjónvarpsstöðvarnar brugðust mjög vel við óskum Umferðarstofu um sýningu fræðslumyndanna og eru forsvarsmenn Umferðarstofu þakklátir fyrir þá samfélagslegu ábyrgð sem stöðvarnar sýna með þessum hætti. Með því að Stöð 2, Skjár 1 og Sjónvarpið miðla umferðarfræðslu til almennings er stígið mikilvægt skref í baráttunni gegn slysum og óhöppum í umferðinni.
Áhugasamir geta skoðað fræðslumyndirnar á heimasíðu Umferðarstofu
www.us.is en þær gagnast mjög vel til almennrar umferðarfræðslu.
Nánari upplýsingar veitir
Einar Magnús Magnússon
Upplýsingafulltrúi Umferðarstofu
Sími: 580-2022 / GSM: 659-5060