Þessi hrikalega flotti Chevy Van brann aðfaranótt föstudags. Nýlega kominn á götuna eftir eins og hálfs árs uppgerð.
"Eldur kom upp í húsbíl sem stóð inni í skúr á baklóð við Skagabraut 21 á Akranesi í nótt. Nágranni varð var við mikinn reyk frá húsinu um klukkan 01:30 og kallaði til aðstoð. Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar gekk vel að ráða niðurlögum eldsins og draga bílinn út. Húsbíllinn er gjörónýtur eftir brunann og skúrinn og ýmis tæki eru mikið skemmd af hita og reyk. Eldurinn náði þó ekki að læsa sig í innviði hússins. One Seven bíll slökkviliðsins sannaði enn og aftur áhrifamátt sinn í þessum bruna. Fulltrúar tryggingafélagsins meta nú skemmdir á húsinu, bílnum og innbúi sem var að magni til eins og á litlu bifreiðaverstæði.
Eigendur hússins og bílsins sem brann eru hjónin Hlynur Eggertsson vélvirki og Jóhanna Lýðsdóttir. Fyrir þau bæði er tjónið á bílnum tilfinningalegt auk þess auðvitað að vera fjárhagslegt einnig. Bíllinn er af gerðinni Chevrolet ChevyVan árgerð 1972. Saga þessa bíls er í stuttu máli sú að fyrstu árin var hann lögreglubíll í Keflavík og sendibíll áður en þau hjón keyptu hann í ársbyrjun 1979. “Þú getur rétt ímyndað þér, ég var bara 23 ára þegar ég kaupi bílinn og breytti honum þá í húsbíl með ýmsum innréttingum sem þá þekktust jafnvel ekki í húsbílum. Hann fer síðan á götuna 1980. Síðan höfum við átt bílinn og í honum liggja þúsundir vinnustunda. Fjórum sinnum á þessum rúmu 30 árum hef ég gert hann upp og er nýbúinn að taka hann alveg frá grunni, var að dunda við það hálft annað síðasta ár. Í honum höfum við farið ótal skemmtiferðir og meðal annars sex sinnum í Evrópureisur,” sagði Hlynur í samtali við Skessuhorn í morgun.
Hann segir að í gærkvöldi hafi hann verið að undirbúa ferð vestur á firði en þangað fer Fornbílaklúbburinn í stóra ferð í dag. Voru þau hjón búin að setja allt ferðadót sitt í bílinn og einungis eftir að aka af stað. Hlynur segir það hafa verið hreina tilviljun að hann var ekki búinn að setja annan fornbíl inn í skúrinn, en sá stóð úti á hlaði glansandi fínn af gerðinni Imperial árgerð 1962. Þann bíl hefur Hlynur einnig gert upp."
"Hlynur við bílinn sem ekki verður gerður oftar upp."