Subaru og Kvartmíluklúbburinn sameinast um bætt umferðaröryggi
Ingvar Helgason ehf. umboðsaðili Subaru á Íslandi og Kvartmíluklúbburinn hafa ákveðið að sameinast um það að leggja sitt af mörkum til að stuðla að auknu umferðaröryggi á vegum landsins. Í gegnum tíðina hefur Subaru boðið upp á kraftmikla útfærslu af Impreza svokallaða “Turbo” bíla en þeir skila vel yfir 200 hestöflum og má finna í rallýkeppnum víða um heim.
Kveikjan að samstarfinu kviknaði í kjölfarið af þeirri umræðu sem mikið hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um hraðakstur á götum borgarinnar.
“Í stað þess að ökumenn freistist til að aka um götur borgarinnar á ólöglegum hraða ákváðum við í samráði við Kvartmíluklúbbinn að gefa eigendum þessara bíla ársaðild í Kvartmíluklúbbinn, en alls eru þetta um 200 bílar. Ég er sannfærður um að þetta eigi eftir að reynast vel og einnig erum við að skipuleggja ákveðinn viðburð með þessum hóp sem kynntur verður síðar. Við viljum leggja okkar af mörkum til að sporna við þessari þróun á hraðakstri sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og náum því vonandi fram á jákvæðan hátt” segir Rúnar H. Bridde markaðs- og sölustjóri Subaru.
Kvartmíluklúbburinn er áhugamannafélag um kvartmílu. Tilgangur félagsins er að sameina áhugamenn um mótorsport og bílaáhugamennsku, starfrækja keppnishald á afmörkuðum svæðum í bílaíþróttum, efla vitund og tilgang þess að hraðakstur skuli ekki stunda á umferðagötum, þess í stað bjóðist að stunda hraðakstur og sérstakan æfingarakstur á afmörkuðum svæðum til þess ætluðum. Hér er átt við það markmið að færa hraðakstur af götum borgarinnar inn á lokað brautarsvæði þar sem menn geta spreytt sig á hraðakstri í skipulögðum keppnum undir öruggri handleiðslu reyndra manna.
P.s. fyrir ykkur Subarufólk þá er viðburðurinn sem ég tala um að ofan kvartmíludagur sem fyrirhugaður er 3. júni þar sem Kvartmíluklúbburinn skipuleggur keppni og mælingar Takið daginn frá. Eigendur Impreza "Turbo" munu fá sent boð um þáttöku ásamt gjafakortinu í klúbbinn.
Kveðja,
Rúnar H. Bridde
Markaðs- og sölustjóri Subaru