Sæll Moli
Það er nú sunnudagur þannig að við skulum hafa söguna sukklausa...........
Eitt sinn mætti niður á spólbryggju frakkaklæddur náungi (nú þjóðkunnur) á Bronco föður síns, beinuðum með sexu. Honum fannst fútt í að spóla þarna og hafði það fyrir sið að skella jeppanum í lága drifið og láta hann malla uns rauk verulega úr bryggjunni og dekkjunum. Broncoinn var sennilega með handgasi, frekar en að náunginn hafi sett planka á bensíngjöfina, en a.m.k. þá datt honum nokkuð í hug: Hann festi Broncoinn við bryggjupolla með spotta. Setti í lága drifið og allt í botn. Þegar reykur fer að stíga undan jeppanum, skaut okkar maður sér út úr bílnum TIL AÐ LJÓSMYNDA actionina. Hann stóð þarna glottandi fyrir utan mannlausan jeppann þegar sexan fór skyndilega að hökta. Við það kom slinkur á spottann sem gaf sig og Broncoinn lagði af stað norður bryggjuna og stefndi fram af henni hinum megin og til hafs. Reykurinn undan skósólum driversins var ekkert síðri en það sem kom undan Bronconum, þegar hann sá jeppann skeiða af stað eftir bryggjunni með spottaræksnið flaksandi aftur úr sér. Móður og másandi rétt meikaði hann að stökkva inn í bílinn og koma í veg fyrir að jeppinn yrði uppfylling á botni Eyjafjarðar.
----
Mér finnst þessar fínu myndir á vefnum þínum fá fyrst verulegt gildi þegar hægt er jafnframt að upplýsa ævi og örlög þessara tryllitækja á sömu vefsíðu. Spjallborðið þitt býður upp á þetta en væri kannski hægt að númera hverja mynd þannig að tengingar myndar og sagnfræðilegra upplýsinga um v.k. bíl verði áreiðanlegri en núna? Þannig gætu margir sem muna eftir einstökum bílum skrifað um það sem þeir muna, og þannig verður smám saman til heildstæð mynd af sögu hvers bíls, svona nokkurskonar Tryllitækjasaga Íslands.